Hvað er í gangi?
Það er alþekkt í löndunum í kringum okkur að vinsælt bakkelsi og aðrir réttir eigi sér sinn eigin dag. Má þar sem dæmi nefna bæði vöfflu- og kanelsnúðadaginn í Svíþjóð og pönnukökudaginn í Danmörku en að sjálfsögðu er kleinan ekki síður mikilvæg íslenskri þjóðmenningu en fyrrnefnt góðgæti í umræddum löndum! Kleinudeginum var fagnað í fyrsta sinn árið 2021. Um hann hefur verið fjallað í öllum helstu fjölmiðlum og æ fleiri fyrirtæki á sviði veitinga taka þátt. Það græðir enginn á kleinudeginum nema íslenska þjóðin sem fær tækifæri til að hafa gaman og gera kleinunni hátt undir höfði!
Hvernig er deginum fagnað?
Kleinudeginum er vitaskuld best að fagna með því að fá sér kleinu, hvort sem um er að ræða heimagerða kleinu eða kleinu úr uppáhaldsbakaríinu! Á Instagram-síðunni Kleinudagurinn er ýmsum innblástri deilt og fólk hvatt til að deila myndum af kleinunni sinni. Við deildum einnig ýmsum skemmtilegum upplýsingum tengdum kleinunni og endurdeildum færslum almennings og fjölmiðla um kleinudaginn.
Hvers vegna 10. nóvember?
Vinir kleinunnar veltu því vel og vandlega fyrir sér hvenær best væri að fagna kleinudeginum. Fjölmörg rök eru fyrir því að haustið henti vel. Íslendingar fagna bolludeginum á vorönn, og reyndar fjölmörgum öðrum dögum, en alræmt er að fagnaðarefni eru fá að hausti. Þegar lægðirnar dynja á er notaleg tilhugsun að hittast með fjölskyldunni og steikja kleinur en dagurinn má þó ekki vera svo seint að hann keppi við laufabrauðsgerðina. Kleinur sem steiktar eru í nóvember má líka vel frysta og nýta á aðventunni. Fyrst og síðast var svo einfaldlega löngu kominn tími til að gera kleinunni hátt undir höfði og því var ekki eftir neinu að bíða!
Hvað geta fjölmiðlar og fyrirtæki gert?
Vonir okkar standa til þess að fjölmiðlar og fyrirtæki haldi áfram að vekja athygli á kleinudeginum og hjálpi þannig vinum kleinunnar að fjölga í vinahópnum. Eina markmiðið með kleinudeginum er að skapa nýja og skemmtilega hefð og auðvitað að sýna íslensku kleinunni þá virðingu sem hún á skilið! Vinir kleinunnar hafa enga hagsmuni af aukinni sölu á kleinum og uppskera eingöngu ánægjuna af því að gera kleinunni hátt undir höfði.
Kleinan lengi lifi!
#KLEINUDAGURINN
kleinudagurinn@gmail.com